08 Jul Sunnukvistur – hvítblómstrandi blómagosbrunnur
Sunnukvistur er glæsilegur hvítblómstrandi runni með langar og bogadregnar greinar. Blóm sunnukvists eru fremur lítil en mörg saman í hvelfdum hálfsveip. Þessir blómsveipir raða sér eftir endilöngum bogadregnu greinunum þannig að þær eru hreinlega þaktar blómum. Runninn verður allt að tveir metrar á hæð og breidd og vissara að velja honum stað þar sem hann nær að njóta sín til fulls. Hann þarf sólríkan vaxtarstað og jarðvegurinn verður að vera nægilega rakur, hvorki of þurr né of blautur. Sunnukvisturinn myndar blómvísa sína seinni hluta sumars þannig að þeir bíða þolinmóðir á runnanum yfir veturinn og fram á vorið. Blómvísarnir eru flestir á bogagreinum sem eru án hliðargreina. Þetta þarf að hafa í huga við klippingu á runnanum. Í stað þess að klippa hann niður þarf að fara inn í runnann og grisja í burtu greinar sem hafa nú þegar blómstrað mikið en þær þekkjast vel á litlum hliðargreinum. Löngu mjóu og einföldu greinarnar eru látnar vera, það eru jú þær sem koma með blómin yfir sumarið. Ef runninn er klipptur niður þá er einnig verið að klippa í burtu blómvísana þannig að engin verður blómgunin. Sunnukvistur er sérlega þokkafullur og eftirtektarverður runni og minnir á blómagosbrunn eða jafnvel hvítblómstrandi eldgos. Hann ætti að vera skylduplanta í sem flestum görðum. Þessi harðgerði runni er í fullum blóma í lok júní og eitthvað fram í júlí.
Fleiri runnar hafa sams konar vaxtarlag og sunnukvistur og eru ekki síðri garðplöntur, til dæmis bogkvistur og stórkvistur sem eru mun stærri umfangs en sunnukvistur, loðkvistur sem þekkist á sínum gráloðnu blöðum og svo eru til lágvaxnari yrki af sunnukvisti sem ekki eru síðri í ræktun.