fbpx

Skjólbelti

Skjólbelti

Ein áhrifaríkasta aðferðin til að bæta vaxtarskilyrði er að rækta skjólbelti til að hlífa við vindálagi. Skjólbelti geta verið með ýmsu móti, einföld röð eða margar raðir, úr  einni tegund eða blönduð úr ýmsum tegundum allt eftir hvað hentar best á hverjum stað.
Blönduð skjólbelti eru samsett úr mörgum misjafnlega hávöxnum tegundum af trjám og runnum sem plantað er á víxl. Slík skjólbelti henta vel í kringum garða í staðinn fyrir klippt limgerði, kringum sumarbústaðalóðir og á opnum svæðum í bæjum.

Í skjólbelti er nauðsynlegt að nota harðgerðar tegundir sem vaxa nokkuð hratt og mynda fljótt skjól. Blandað er saman tegundum sem verða fljótt hávaxnar og lágvaxnari trjám og runnum sem mynda þétt skjól á milli. Dæmi um hávaxnar tegundir sem geta náð 10-20 m á hæð má nefna alaskaösp, selju, sitkagreni, lerki, ilmreyni og jafnvel birki, sem er að vísu nokkuð hægvaxta.

Ýmsa runna má svo nota sem lágskjól á milli trjánna en þeir verða að vera frekar þéttvaxnir og harðgerðir. Hér má nota ýmsa toppa eins og blátopp, glótopp og gultopp. Margir kvistir eru líka nothæfir eins og sunnukvistur, bogkvistur og mánakvistur. Líka má nota rifs, sólber, stikkilsber og sýrenur. Runnarósir eins og hansarós og fjallarós mætti líka nota ásamt fleiri harðgerðum rósum. Tegundir eins og yllir, snjóber og koparreynir eru líka góðar. Um að gera að nota sem flestar tegundir til að fá fram fjölbreytt litaskrúð í blómum og laufi. Mjög sólelskar plöntur eins og geislasópur og hafþyrnir eru ekki nothæfar í blönduð skjólbelti.

Runnum og trjám er svo raðað á víxl og er æskilegt að bil á milli runna sé um 1 m en 2-3 m á milli trjáa. Í slíkum skjólbeltum þarf alltaf að passa vel uppá að stórvaxnar tegundir og frekar skyggi ekki of mikið á þær smávaxnari, slíku má stjórna með árlegri snyrtingu. Þó er best að lofa plöntunum að vaxa að mestu frjálst ef um blómstrandi runna er að ræða. Ávallt þarf að hafa í huga að velja plöntur sem ná þeirri hæð sem sóst er eftir. Plöntur undir 1 m eiga t.d lítið erindi í slík skjólbelti nema þá sem þekjuplöntur. Þetta gæti t.d. átt við um hélurifs og kirtilrifs sem þekja jarðvegin vel og halda niðri illgresi.

Í raun má nota í skjólbelti flestar harðgerðar tegundir sem uppfylla þær hæðar og þéttleika kröfur sem gerðar eru hverju sinni. Skuggþolnir runnar reynast þó oftast best.

Alltaf þarf að undirbúa jarðveg vel fyrir slíka útplöntun og setja vel af búfjáráburði í beðin. Stundnum er plantað í gegnun svart plast til að halda aftur af illgresi en það á helst við um skjólbelti í kring um tún og sveitabæi. Þá er líka oft plantað í 2-3 raðir en slíkt er heldur plássfrekt ef um venjlegan heimilisgarð er að ræða.

Í gróðrarstöðvum er í boði mikið úrval af trjám og runnum og um að gera að velja saman tegundir eftir smekk hvers og eins.