10 May Runnar á skuggsæla staði
Í mörgum görðum leynast skuggalegir staðir þar sem venjulegir runnar þrífast illa eða alls ekki. Sólin virðist kjósa að sneiða hjá þessum stöðum og skín þeim mun meira annars staðar. Flestir garðeigendur á Íslandi kjósa að vera sólarmegin í lífinu og þess vegna nýtast svona skuggahorn lítið sem ekkert og þá er freistandi að finna runna sem geta fyllt upp í hornin, þannig að þau líti að minnsta kosti sómasamlega út. Sem betur fer eru til plöntur fyrir flest öll þau ræktunarskilyrði sem okkur dettur í hug að hafa í görðum okkar og það sama er uppi á teningnum með skuggahornin. Þeir runnar sem dafna í skugganum þola minni inngeislun sólar en aðrir runnar, halda fallega grænum blaðlit og vaxa eðlilega en blómstra að sama skapi lítið sem ekkert, enda þurfa allar plöntur beina sól einhvern hluta úr degi til að geta blómstrað. Í hópi þessara skuggþolnu runna eru ýmsir toppar af ættkvíslinni Lonicera, svo sem blátoppur, glótoppur, glæsitoppur, surtartoppur, dúntoppur og gultoppur; ýmsar tegundir runna af rifsættkvíslinni, Ribes, eins og hélurifs og kirtilrifs sem hafa þekjandi vaxtarlag, fjallarifs með upprétt vaxtarlag, auk þess sem berjategundirnar rauðrifs, sólber og blárifs geta vaxið í skugga en koma þá sjaldnast með ber. Snjóber og aðrir runnar af ættkvíslinni Symphoricarpos duga vel í skugga og sama má segja um dúnylli af ættkvíslinni Sambucus. Af sígrænum tegundum eru það helst þallir (Tsuga) og þinur (Abies) sem þola vel skugga á sínum yngri árum, auk þess sem grenitegundir (Picea) geta unað í talsverðum skugga til að byrja með. Þessi listi er alls ekki tæmandi en gefur hugmyndir um tegundaval fyrir erfiða skuggastaði.