fbpx

Næturfrost

Næturfrost

Flestir garðeigendur eru yfirleitt strax um páskaleytið orðnir óþreyjufullir eftir grænu og blómstrandi sumri. Um leið og sólin lætur sjá sig fyllast garðar og sumarbústaðalönd af iðnu fólki sem klippir runna og tré, hreinsar beð og sáir fyrir sumarblómum og matjurtum. Hins vegar eru veðurguðirnir ekki alltaf mjög samvinnuþýðir og eiga það til að bjóða upp á hressileg næturfrost og jafnvel vorhret í ýmsum útgáfum. Af þeim sökum hafa garðyrkjufræðingar yfirleitt varann á sér og mæla ekki með að viðkvæmar og hitakærar plöntur séu settar út í garða fyrr en mesta næturfrosthættan er liðin hjá, eða snemma í júní í meðalári. Hinir sem alls ekki geta beðið eftir sumarveðrinu og hafa gróðursett plöntur í ker og potta og jafnvel út í garð ættu að að fylgjast með veðurspá og kippa pottum og kerjum inn í skjól á nóttunni og meðan versti veðurhamurinn gengur yfir. Gróður sem búið er að gróðursetja í beð getur einnig þurft á skýlingu að halda yfir kaldasta tímann og hentar akrýldúkur mjög vel til slíkra verka. Hitastigið undir dúknum er eilítið hærra en fyrir utan dúkinn og hann veitir ungum plöntum skjól gegn vindi. Ef skaðinn er skeður og garðeigandinn vaknar upp í frosti er gamalt garðyrkjuráð að skella garðúðurunum í gang og láta þá úða yfir viðkvæmu plönturnar allt þar til frostið er liðið hjá. Laufblöð plantna sem lenda í kuldaáfalli verða bláleit og vöxtur þeirra stöðvast um hríð. Laufblöð plantna sem lenda í frostskaða einfaldlega eyðileggjast.