fbpx

Molta í garðinn

Molta í garðinn

Smám saman eru fleiri og fleiri garðeigendur farnir að jarðgera allt lífrænt efni sem fellur til í garðinum. Því fylgja margir kostir og einn sá stærsti er að þannig myndast molta sem hægt er að nota aftur í garðinn. Moltan er yfirleitt mjög næringarrík og því er vissara að líta á hana sem áburð eða áburðarefni. Þegar molta er notuð í matjurtagarða eða í beð fyrir jurtkenndar plöntur er nauðsynlegt að blanda henni saman við þann jarðveg sem fyrir er til að milda áhrifin af henni. Ungar jurtkenndar plöntur þola ekki að vaxa í hreinni moltu. Þroskaðar trjáplöntur og limgerðisplöntur hins vegar eru mjög spenntar fyrir því að fá viðbót af lífrænu efni ofan á beðin. Þá er góðu lagi af moltu dreift ofan á jarðveginn í kringum plönturnar og við það fá plönturnar bæði nýjan skammt af lífrænu efni sem fyllir vel í beðið og næringarríkan forða sem dugar fram eftir sumri. Jafnframt ætti moltan að draga úr illgresisverkefnum því hitastigið á jarðgerðarstiginu á að fara það hátt upp að illgresisfræið drepst. Í moltunni eru einnig örverur sem hjálpa til við að brjóta niður lífrænt efni og gera það aðgengilegt plöntum. Það eru því ótal kostir við það að jarðgera garðaúrgang og nýta hann aftur í garðinum. Þetta er sennilega upprunalega hringrásarhagkerfið.