20 May Matjurtir og kryddplöntur
Í gróðrarstöðvum er að finna gott úrval af matjurtum og kryddplöntum og fjölgar tegundum með hverju ári. Algengast er að selja kál- og salatplöntur í 5-7 sm pottum. Slíkar plöntur eru í hæfilegri stærð til útplöntunar. Þeim er plantað út sem fyrst að vorinu til að nýta vaxtartímann sem best, oftast um mánaðarmótin maí-júní.
Kosturinn við það að kaupa forræktaðar plöntur á vorin er að þá fást góðar plöntur á réttum tíma, ræktaðar við bestu aðstæður. Þeir sem vilja forrækta sínar eigin kálplöntur þurfa að hafa góðar aðstæður til þess. Plöntur sem lent hafa í erfiðleikum í uppvexti gefa sjaldnast ásættanlega uppskeru.
Þær tegundir sem algengastar eru hér á landi eru salat, blómkál, spergilkál, hvítkál, rauðkál, grænkál, rófur og rauðrófur. Líka eru í boði plöntur af blaðlauk, selleríi og vorlauk ásamt fleiri spennandi tegundum sem sífellt eru að bætast við úrvalið.
Hægt er að fá fjöldann allan af kryddjurtum sem henta vel til að rækta í heimilisgarðinum. Sumar þessara tegunda eru fjölærar og lifa vel á milli ára eins og skessujurt, mynta og graslaukur. Aðrar eru einærar og þarf því að endurnýja á hverju ári.
Sem dæmi um kryddplöntur sem algengar eru í ræktun hér á landi má nefna dill, basilíku, sítrónumelissu, myntu, majoran, origano, timjan, graslauk og koriander. Allt eru þetta duglegar plöntur sem þrífast vel úti allt sumarið nema basilíkan sem kann best við sig inni í eldhúsglugga.
Skessujurt og rabbarbari eru tegundir sem þurfa mikið pláss og þarf að velja þeim góðan vaxtarstað þar sem þær geta vaxið árum saman og gefið ríkulega uppskeru.
Möguleikar til matjurtaræktunar eru mun fleiri hjá þeim sem eiga gróðurhús. Í garðyrkjustöðvum er oft hægt að fá plöntur af tómötum, kúrbít, papriku og fleiri tegundum sem henta til ræktunar inni.
Við ræktun á matjurtum og kryddi þarf alltaf að velja sólríkan og sæmilega skjólgóðan vaxtarstað. Skipulag og útfærsla á garðinum fer eftir aðstæðum og smekk hvers ræktanda. Stærð garðsins er ekki höfuðatriði, það er vel gerlegt að rækta þessar plöntur í pottum og kerjum úti á svölum. Sólin þarf aðeins að ná að skína á plönturnar hluta af deginum.
Flestar matjurtir þurfa frjósaman, rakan og vel framræstan jarðveg. Því þarf að muna að vökva vel í þurrkatíð. Bil á milli plantna við útplöntun er nokkuð breytilegt t.d þarf að reikna með 35-50 sm á milli kálplantna en salat þarf ekki nema 25 sm bil á milli plantna.
Ef einhver tími líður frá því að plönturnar eru keyptar þar til þeim er plantað út þarf að passa vel uppá að vökva vel. Þetta á einnig við um fyrstu dagana eftir gróðursetningu meðan plantan er að koma sér fyrir á nýjum stað. Allar matjurtir þurfa nokkuð góða áburðargjöf yfir vaxtartíman.
Það getur verið heppilegt að setja akryldúk yfir plönturnar fyrstu vikurnar til að skapa þeim betri vaxtarskilyrði. Þetta á sérstaklega við um kálplöntur. Dúkurinn kemur í veg fyrir að kálflugan verpi hjá plöntunum og að lirfa flugunnar skemmi síðan rætur plantnanna.
Sniglar geta líka verið til vandræða sérstaklega í vætutíð. Þá má tína burt og líka er til sniglaeitur. Bjórgildrur eru líka vænlegar til þess að fækka sniglum. Þá er bjór settur í dollu og hún grafin niður þannig að um 2 sm kantur er upp úr jörðinni. Sniglarnir sem eru mjög svo bjórþyrstir fara síðan ofan í og drukkna.
Það er gefandi og hagnýtt fyrir hvern garðeiganda að hafa fallegan og vel hirtan matjurtagarð, það er einstök tilfinning að fara út og sækja eigin uppskeru í matinn þegar hennar er þörf.