fbpx

Gular blómabombur

Gular blómabombur

Fíflar og sóleyjar eru sannkallaðir vorboðar með sína skærgulu blómliti sem gleðja augað eftir langan vetur. Þessar duglegu plöntur eru þó oftast mjög neðarlega á vinsældarlista garðeigenda og hafa þær raddir heyrst á förnum vegi að fólk þoli hreinlega ekki þessar gulu frekjur sem mæta í garðinn óumbeðnar og reynast þaulsætnar. Það má þó ekki gleyma því að þessi skærguli litur er einmitt liturinn sem við söknum hvað mest yfir veturinn, þegar aðallitaúrvalið er í gráum tónum og frumuppspretta gula litarins er upptekin í verkefnum á hinum helmingi hnattarins. Guli liturinn grípur alltaf augað og gefur von um sumar og þá er ekki úr vegi að eiga eins og nokkrar gular blómabombur í garðinum til að tryggja gleðilegt sumar. Geislasópur er þar fremstur í flokki enda er hann alþakinn sínum heiðgulu blómum snemma sumars. Blómin raðast eftir greinum runnans endilöngum og ekki spillir fyrir að þau ilma mikið og vel. Að blómgun lokinni standa fagurgrænar greinar út sumarið og allan veturinn, allt fram að næstu blómgun. Geislasópurinn er um einn meter á hæð og breidd með tímanum og þarf að standa á sólríkum stað, helst í frekar sendnum jarðvegi. Gullregn er náskylt geislasópi enda eru þessar blómviljugu tegundir af sömu plöntuætt, ertublómaættinni. Vaxtarlagið er þó gjörólíkt, gullregnið er tré sem nær allt að 5-9 m hæð og myndar fallega krónu. Blómin eru í fagurgul í löngum hangandi klösum sem vekja aðdáun og eftirtekt á blómgunartímanum. Runnamura fylgir fast á eftir geislasóp og gullregni og byrjar að blómstra um það leyti sem gullregnið er að ljúka sér af. Blóm runnamurunnar eru frekar stór, skállaga og yfirleitt skærgul, þótt vissulega finnist yrki með hvítum, bleikum og jafnvel rauðleitum blómum. Runnamura hefur einstaklega langan blómgunartíma og getur haldið áfram að blómstra langt fram á haust.