fbpx

Haustverkin í garðinum

Haustverkin í garðinum

gardurin-i-novemberAlvöru garðyrkjufólk er alltaf að og finnur sér verkefni allan ársins hring. Hér eru nokkrar hugmyndir um hvað hægt er að taka sér fyrir hendur á haustin.

Plantaðu trjám og runnum í garðinum
Haustið er tíminn til að planta lauffellandi trjám, runnum og rósum. Á þessum tíma hafa plönturnar safnað næringarefnum niður í ræturnar og eru lagstar í dvala svo núna þola þær best að vera fluttar úr stað. En nauðsynlegt er að huga vel að rótunum, þær þola alls ekki að þorna við umplöntunina. Það er mikilvægt að taka plönturnar úr þeim umbúðum sem þær voru keyptar í og leggja þær  strax í bleyti í vatnsfötu. Setja þær síðan beint í holuna og hella vatni og mold yfir áður en  þrýst er að.  Varist sérstaklega að láta sólina skína á ræturnar. Þurrkur í nokkrar mínútur getur valdið varanlegum skaða.

 

Tæmdu potta, könnur og garðslönguna
Margir blómapottar þola ekki frost, sérstaklega hættir leirpottum til að springa þegar hitastigið fellur niður fyrir frostmark. Potta, sem ekki eru frostþolnir, þarf að tæma og helst að geyma innandyra. Hægt er að geyma þá utandyra en þá þarf að hreinsa þá vel og stafla þeim tómum á hvolfi. Einnig er gott að muna eftir að tæma vökvunarkönnuna, regnvatnsílát og garðslönguna. Hana þarf að hringa saman og tæma svo vatn frjósi ekki í henni og hún skemmist.

 

Tími til að líta eftir tækjum og tólum
Það er sniðugt yfirfara garðsláttuvélina vel áður en henni er komið fyrir í vetrargeymslu. Gott er að hreinsa úr henni allar plöntuleifar, hreinsa loftsíuna og kertið og e.t.v. skifta um ef þess er þörf. Einnig er gott að smyrja vélina, skipta um olíu og brýna hnífinn. Með þessu lagi er vélin tilbúin þegar hún er dregin fram næsta vor til að slá grasið.

 

Hausthreingerning í gróðurhúsinu
Grænmeti sumarsins er væntanlega farið að láta á sjá og búið að gefa uppskeru sína þetta sumarið. Því er gott að nota tímann og hreinsa út úr sér sprottnar plöntur og dauðar plöntuleifar. Þrífa svo gróðurhúsið vel með brúnsápu. Góð hreingerning minnkar líkurnar á sjúkdómum og meindýrum næsta sumar.  Nota svo plássið sem myndast til að geyma viðkvæmar plöntur sem ekki þola veturinn útivið. Einnig er notalegt að koma fyrir garðhúsgögnum og sitja og njóta sólskinsdaga sem kannski koma í vetur.

 

Jólaskraut úr náttúrunni
Nú nálgast tíminn þegar farið er að huga að skreytingum fyrir jólin. Fáðu þér göngutúr í garðinum. Þar er áreiðanlega hægt að safna könglum, greinum, mosa, skófum o.fl. sem nýtilegt er í jólaskreytingar. Ef garðurinn gefur ekki nógu fjölbreytilegt efni þá er skemmtilegt að bregða sér í næsta skógarreit og safna. En hafa ber í huga að ganga vel um og skemma ekkert. Þumalfingursreglan er að það sem þú kemur í einn venjulegan hölduplastpoka dugar fyrir fjölskylduna.