fbpx

Berjarunnar

Berjarunnar

berjarunnarFjölmargar tegundir berjarunna eru harðgerðar hér á landi og geta gefið nokkuð góða og árvissa uppskeru.  Mest hefur verið ræktað af rifsi en sólber og stikilsber hafa líka verið í ræktun hér um langan aldur.  Á undanförnum árum hefur lika verið hægt að fá harðgerð og góð yrki af hindberjum.  Einnig hafa lengi verið ræktuð hér jarðarber en þau teljast til jurta en ekki runna. Þau eru líka mjög dugleg hér á landi og gefa góða uppskeru.

Fjölmargar tegundir berjarunna eru harðgerðar hér á landi og geta gefið nokkuð góða og árvissa uppskeru.  Mest hefur verið ræktað af rifsi en sólber og stikilsber hafa líka verið í ræktun hér um langan aldur.  Á undanförnum árum hefur lika verið hægt að fá harðgerð og góð yrki af hindberjum.  Einnig hafa lengi verið ræktuð hér jarðarber en þau teljast til jurta en ekki runna. Þau eru líka mjög dugleg hér á landi og gefa góða uppskeru.

Nokkrar tegundir skrautrunna bera líka ber sem hæfa vel til manneldis þó svo að þau hafi ekki verið mikið nýtt sem slík fram á þennan dag.  Þar má t.d nefna ber hlíðaramals, hélurifs og hafþyrni.  Einnig er vel hægt að nýta ber af logalaufi, reyni, blárifsi sem og aldin rósa svo eitthvað sé nefnt. Þessar tegundir eru allar harðgerðar og geta gefið góða uppskeru. Af flestum þeim tegundum sem hér hafa verið nefndar eru til allnokkur yrki. Við ræktun hafþyrnis sem berjaplöntu þarf að hafa í huga að hann er sérbýlisplanta og þarf þá bæði karl og kvenplöntu til þess að aldin myndist.

Berjarunnum þarf að velja sæmilega bjartan og sólríkan vaxtarstað ef þeir eiga að gefa góða uppskeru.  Sumar tegundir þola að vísu nokkurn skugga en þá er hætt við að uppskeran verði rýrari. Best er að planta berjarunnum í frjósaman jarðveg og gott er að setja lífrænan áburð með við gróðursetningu.  Bil á milli plantna getur verið á bilinu 1-2,5 m allt eftir því hvort að rækta á í þéttum röðum eða staka runna með smá millibili. Hindberjum má planta með allt niður í 45 sm millibili ef það er í röðum. Nauðsynlegt er að gefa áburð eftir þörfum og gott er að vökva öðru hverju og sérstaklega á meðan berin eru að vaxa. Gamla berjarunna þarf að grisja reglulega og fjarlægja gamlar greinar. Þær þekkjast á því að þær eru dekkri og sverari heldur en þær yngri.  Oftast byrja runnar að gefa uppskeru eftir 2-3 ár og ef vel tekst til getur hver runni gefið nokkur kiló af berjum.