fbpx

Haustgróðursetningar

Haustgróðursetningar

haustgrodursetningar1Það færist sífellt í vöxt að tré og runnar séu gróðursett á haustin.  Þetta er góður kostur til að nýta vaxtartíma plöntunnar sem best. Plantan er þá komin á sinn stað og getur hafið rótarvöxt um leið og jörð þiðnar og byrjar að hlýna vorið eftir.  Plöntum er mun hættara til á að skemmast í þurrki yfir sumarið heldur en á haustin.

Á haustin er jarðvegurinn mun rakari og hlýrri heldur en fyrripart sumars og því kjöraðstæður til að setja niður plöntur. Í landi þar sem mikil hætta er á frostlyftingu, eins og t.d. gróðursnauðum melum,  getur þó verið betra að gróðursetja á vorin. Í sæmilega grónu landi er hinsvegar lítil hætta á frostlyftingu og plönturnar geta haft það mjög gott fram eftir hausti. Þó svo að plönturnar felli laufið og lítið virðist vera að gerast er rótarvöxtur þeirra oft virkur langt fram eftir hausti löngu eftir að yfirvexti lýkur.

Í rauninni eru engin tímamörk fyrir gróðursetningu að haustinu það þarf  bara að gerast áður en að jörð frýs.  Það er alltaf góður kostur að setja búfjáráburð í holuna og blanda vel við jarðveginn sem fyrir er, þá á plantan næringarforða til næstu ára.  Það sem helst ber að varast er að láta nýjan húsdýraáburð snerta ræturnar því þá geta þær eyðilagst og rótarlaus planta vex ekki framar. Gott er að blanda húsdýraáburðinum vel saman við moldina í holunni og passa að eingöngu sé mold næst rótunum.

haustgrodursetningar2Þegar trjám og runnum er plantað út þarf að hafa í huga að þau eiga eftir að margfalda stærð sína frá því að þeim er plantað út. Best er að leita sér upplýsinga í gróðrarstöðinni um hversu mikið bil rétt er að hafa milli plantna svo svæðið verði ekki strax eins og frumskógur. Einnig er rétt að gera ráð fyrir að nauðsynlegt verði að grisja beð og trjálundi að ótrúlega fáum árum liðnum.  Annað sem vert er að hafa í huga er að gróðursetja í réttri dýpt. Best er að gróðursetja plöntu í sömu dýpt og hún stóð áður. Rótarhálsinn á ekki að fara á kaf en þó þurfa allar rætur að vera ofan í moldinni. Ef planta er gróðursett of grunnt fara ræturnar fljótlega að standa uppúr jörðinni og mynda rótarskot og slíkt tré verður aldrei fallegt. Ef aftur á móti er gróðursett of djúpt byrjar stofninn að rotna og það getur valdið því að tréð brotnar síðar meir við minnsta álag.

Stærri tré þurfa stuðning til að takast á við mislynd veður á komandi vetri. Uppbinding styður tréð meðan rótin er að ná festu í jarðveginum. Til að festa plöntuna er settir niður staurar sitt hvoru megin við hana. Um stofninn er vafið mjúku efni, t.d. strimli úr gúmmíslöngu, og það fest við staurana. Efnið þarf að vera strekkt en ekki svo strekkt að krónan og stofninn geti ekki gefið eftir fyrir vindinum. Oft er miðað við að binda í tréð svo 2/3 af heildarhæðinni séu fyrir neðan uppbindinguna en samt alltaf fyrir neðan krónuna. Líta þarf eftir uppbindingum og slaka á og herða eftir þörfum. Bandið má alls ekki fara að skerast inn í stofninn. Yfirleitt hafa tré rótað sig ágætlega eftir eitt ár en yfirleitt er öruggara að bíða a.m.k. tvö ár.

haustgrodursetningar3Haustgróðursetningar takast yfirleitt mjög vel og gott að nýta þennan tíma til þess að létta af vinnuni á öðrum tíma í ræktuninni.  Gróðrastöðvar eru líka yfirleitt opnar langt fram eftir hausti og auðvelt á að vera að nálgast plöntur á þeim árstíma.