fbpx

Ávaxtatré

Ávaxtatré

avaxtatreÁ undanförnum árum hefur verið vaxandi áhugi á ræktun ávaxtatrjáa hér á landi.  Ávaxtarækt er þó ekki alger nýjung hér á landi því að epli þroskaðist hér fyrst fyrir um 100 árum síðan.  Á síðustu öld munu epli hafa náð að þroskast hérlendis á ýsmum stöðum og við mismunandi aðstæður þó svo að árangurinn hafi verið nokkuð misjafn. Þó eru þekkt allmörg dæmi um sæmilega uppskeru af þokkalegum ávöxtum.

Það eru ekki bara epli sem hafa þroskast hér í görðum, heldur hefur einnig tekist að fá nokkuð reglulega uppskeru af plómum, kirsiberjum og perum.
Fjölmörg yrki eru til af þessum tegundum, mismunandi að gæðum og harðgervi. Það er alger forsenda til árangurs að nota  góð tré af heppilegum yrkjum. Þau þurfa bæði að vera frekar smemmþroska og harðgerð fyrir norðlægar slóðir. Fjölmörg yrki eru fáanleg hér á landi og mismunandi er eftir gróðrarstöðum hvað er í boði og þá jafnvel frá ári til árs.  Best er að leita ráða hjá sérfræðingum og vanda vel valið á trjám.

Að mörgu þarf að hyggja þegar ávaxtatrjám er plantað. Flest þeirra þurfa á öðrum einstaklingi af öðru yrki að halda til þess að fá frjókorn af  svo frjóvgun sé möguleg. Þar af leiðandi eru að a.m.k. tvö tré af mismunandi yrkjum nauðsynleg til þess að frjóvgun heppnist og að aldin myndist. Ávaxtatré eru samt öll tvíkynja og bera ávöxt þó svo að þau hafni eigin frjókornum. Í einstaka tilfellum er hægt að komast  af með eitt tré og er þá talað um að þau séu sjálffrjóvgandi. Þetta á t.d við um sætkirsiberjayrkin ‘Stellu’og ‘Sunburst’ og plómuyrkin ‘Opal’ og ‘Czar’.

Trjánum þarf að velja sólríkan og skjólgóðan vaxtarstað. Á vorin getur verið nauðsynlegt að bera frjókorn á milli blóma með mjúkum pensli ef að lítið er um hunangsflugur.  Fiðrildalirfur geta sótt á trén á vorin og er nauðsynlegt að vera á varðbergi gagnvart þeim. Þær eru mest á ferðinni um mánaðamótin maí-júní og sækja í að naga bæði blóm og blöð af trjánum.

Stundum eru ávaxtarté klippt til þess að fá tiltekið vaxtarform. Þá er oftast klippt síðla vetrar eða uppúr miðju sumri. Þó ber að hafa í huga að aldrei er nauðsynlegt að klippa ávaxtatré og fer oftast betur á því að klippa lítið en of mikið.  Samt er æskilegt að snyrta tré reglulega með því að klippa burt kal og skemmdar greinar.

Við gróðursetningu þarf að huga vel að því að hafa rétt bil á milli trjánna. Bilið fer eftir vaxtarformi og stærð þeirra. Það getur veriðá bilinu 1-5 m en 3-5 m er algengt millibil og jafnvel meira er gott pláss er fyrir hendi.

Ávaxtatré þurfa djúpan, næringarríkan jarðveg. Gott er að gefa lífrænan áburð með þegar gróðursett er en það fer eftir jarðvegsgerð hvað það þarf að vera mikið. Áburðargjöf á ári er síðan um 2 msk af blákorni á sumri og gott er að gefa það 2-3 sinnum.
Það getur tekið tré 2-5 ár að byrja að bera aldin en síðan má búast við nokkuð árvissri uppskeru upp frá því.
Ávallt þarf að muna  að velja tré og vaxtarstað af kostgæfni, það er forsenda þess að viðunnandi árangur náist.