fbpx

Áburður

Áburður

Allar plöntur þurfa næringu til þess að vaxa eðlilega. Næringarástand plantna hefur áhrif á almennt heilsufar þeirra.  Sumar plöntur þurfa mikinn áburð, t.d ýmsar blaðstórar plöntur eins og hvönn, rabbarbari og hvítkál. Plöntur með smágert lauf eins og ýmsar steinhæðaplöntur og kryddjurtir þrífast vel með lítilli eða engri áburðargjöf.

Plönturnar þarfnast mest af þremur megin næringarefnum. Þau eru nitur (köfnunarefni) (N), fosfór (P) og kalíum (K). Nitur hefur mest áhrif á blað og stöngulvöxt, fosfór eflir rótarvöxt, aldin og fræmyndun en kalíum eykur frostþol og mótstöðu gegn þurrki og sjúkdómum.

Önnur nauðsynleg næringarefni eru brennisteinn (S), kalsíum (Sa) og magnesíum (Mg). Einnig þarfnast allar plöntur svonefndra snefilefna, efna sem þurfa að vera fyrir hendi í jarðveginum til að plönturnar þrífist en í örlitlu magni. Þessi efni eru járn (Fe), kopar (Cu), mangan (Mn), bór (B), zink (Zn) og molybden (Mo).

Yfirleitt inniheldur góð garðmold öll helstu næringarefni en þó er oftast nauðsynlegt að gefa plöntunum áburð til að ná fram góðum þrifum, vexti og mikilli uppskeru. Áburðargjöf fer eftir jarðvegsgerð og út frá henni þarf að velja áburð við hæfi. Hægt er að fá næringarefnin hvort sem er úr tilbúnum eða lífrænum áburði.

Tilbúinn áburður

Eins og áður segir inniheldur næringarrík garðmold öll helstu næringarefni svo með henni er gott að gefa alhliða garðáburð, t.d. blákorn sem hentar vel fyrir allan gróður í görðum.

Hóflegur skammtur er um 60-80 gr. á fermetra. Best er að gefa þennan skammt ekki allan í einu heldur skipta honum á 2-4 skipti yfir vaxtartímann og láta 3-4 vikur líða á milli.

Þar sem jarðvegsskilyrði eru síðri þarf að auka áburðarskamtinn. Sem dæmi má nefna lítið ræktuð sumarbústaðalönd.

Köfnunarefnisríkur áburður t.d. trjákorn, hentar vel þar sem jarvegur er ófrjósamur.

Áburðargjöf er best að hefja í maí-júní um það bil þegar plönturnar byrja að vaxa. Ekki ætti að bera tilbúinn áburð á í rigningu þar sem blöð geta sviðnað undan áburðarkornunum ef þau eru blaut. Það getur líka verið gott að nota gúmmihanska við verkið og betra er að bera of lítið á heldur en of mikið. Of mikil áburðargjöf getur skaðað plöntur og jafnvel dregið þær til dauða.

Dreifa þarf áburði vel í kringum tré og varast að setja hann nálægt stofninum. Áburðurinn á að gagnast rótum trésins, rótarkerfi þess getur oft verið álíka breitt og krónan og stundum nær það langt út fyrir hana.

Kalk er stundum borið á sérstaklega bæði þar sem mosi er vandamál og lika í matjurtagarða. Kalk bætir uppbyggingu jarðvegsins ásamt því að auðvelda upptöku næringarefna.

Lífrænn áburður

Í lífrænum áburði eru öll næringarefni sem plöntur þarfnast og vel kemur til greina að nota slíkan áburð eingöngu. Hægt er að nota ýmisskonar búfjáráburð eins og hrossatað, hænsnaskít og kúamykja. Einnig má nota þangmjöl, moltu og sveppamassa en þessar áburðartegundir er hægt að kaupa í handhægum pakkningum.

Búfjáráburður hefur mjög góð áhrif á jarðveg, bætir uppbyggingu hans og eykur örverustarfsemi. Mjög gott er að nota lífrænan áburð þegar plöntur eru gróðursettar því hann er lengi að brotna niður og hefur bætandi áhrif á jarðveginn til lengri tíma. Þá er búfjár eða annar lífrænn áburður settur í holuna og honum hrært vel saman við jarðveginn sem fyrir er. Hæfilegt magn getur verið 1-2 skóflur af hrossataði eða 1-2 lúkur af hænsnaskít. Slík áburðargjöf gefur plöntunum góðan forða fyrstu árin eftir gróðursetningu.

Ætíð skal varast að láta áburð komast í beina snertingu við rætur plantna, það getur í versta falli leitt þær til dauða.

Ef ræktað er í rýru landi er gott að gefa tilbúinn áburð í nokkur ár eftir gróðursetningu.