fbpx

Undirbúningur matjurtagarðsins

Undirbúningur matjurtagarðsins

Um leið og frost fer úr jörðu á vorin er tilvalið að nýta tímann í að undirbúa matjurtagarðinn undir matreiðsluævintýri sumarsins. Eftir veturinn er jarðvegurinn oft samanþjappaður og nauðsynlegt að stinga jarðveginn upp til að koma í hann góðri loftun. Reyndar eru sumir þeirrar skoðunar að betra sé að stinga jarðveginn ekki upp heldur láta hann alveg í friði því það fari betur með smádýralífið í jarðveginum. Nújæja, fyrir þá sem ætla samt að stinga garðinn upp er augljós kostur að nota tækifærið og fjarlægja illgresi í leiðinni. Margar tegundir illgresis geta náð að spíra upp í garðinum í hlýindaköflum vetrarins og þær stökkva af stað um leið og sólin birtist á vorin. Fjölærar illgresistegundir eru einnig þaulsætnar í matjurtagörðum ef þær ná þar rótfestu og best að hreinsa sem mest af rótakerfi þeirra í burtu á vorin. Jafnframt þarf að huga að því að bæta við lífrænu efni í garðinn í stað þess sem tekið er úr garðinum en í hvert sinn sem við uppskerum matjurtir erum við að fjarlægja lífrænt efni úr matjurtagarðinum. Við niðurbrot minnkar umfang lífræns efnis og heildarmagn jarðvegs í garðinum minnkar. Þá þarf að koma inn með annað hvort moltu eða búfjáráburð. Moltan er frekar sterk og því nauðsynlegt að stinga henni vel saman við jarðveginn. Hún hefur þann kost að henni fylgir ekki illgresisfræ, í sama mæli og með búfjáráburði. Það má þó hugga sig við það að ef maður setur búfjáráburð í matjurtagarðinn þarf maður ekki að óttast verkefnaleysi yfir sumarið, það verður nóg að gera við að reita arfa. Þegar garðurinn hefur verið stunginn upp og lífrænu efni bætt í hann er um að gera að móta beðin og þá er allt klárt fyrir gróðursetninguna þegar plönturnar koma í sölu í garðyrkjustöðvum.