fbpx

Trjáklippingar

Trjáklippingar

Nauðsynlegt er að laga til vöxt trjáa og runna helst einu sinni á ári og jafnvel oftar.  Algengast er að aðalklippingin sé framkvæmd að vetri eða snemma vors en einnig má klippa tré og snyrta á öðrum árstímum. Í verkið þarf góða sög, klippur og jafnvel stiga.  Marga runna nægir að grisja lítillega og laga aflaga vöxt. Einnig er gott að klippa vel frá gangstígum, gluggum og öðrum mannvirkjum.Best er að byrja á því að taka burt dauðar greinar og einnig allar greinar sem nuddast saman. Flesta runna er gott að grisja þannig að fjarlægja elstu greinarnar og skapa þannig pláss fyrir nývöxt.
Þetta á sérstaklega við um runna og tré sem blómgast á eldri greinum.

Runna og limgerði getur þurft að endurnýja reglulega alveg frá grunni og er þá sagað eða klippt niður í 10-25 sm hæð. Runna, sem blómgast á greinum frá fyrra ári, má líka klippa strax eftir blómgun. Stundum er líka hægt að fórna blómgun í eitt ár ef að endurnýja á runna eins og t.d birkikvist.

Hægt er að flokka tré og runna gróflega eftir því hvernig þeir blómgast.

 

  1. Runnar sem blómgast á endum greina sem vaxið hafa árið áður. T.d lyngrósir, sýrenur og gullregn. Slíkar tegundir eru aðallega grisjaðar ef þurfa þykir.
  2. Runnar sem blómgast eftir endilöngum greinum frá fyrra ári. Klippt er eftir blómgun eða elstu greinarnar grisjaðar burt. T. d. eru margir kvistir, toppar, snækóróna, geislasópur og flestar runnarósir (fjallarós, þyrnirós o.fl.) í þessum flokki. Til viðbótar má nefna rifs, sólber og stikkilsber sem líka tilheyra þessum flokki.
  3. Runnar sem blómgast á nýjum greinum. T.d dögglingskvistur, japanskvistur, perlukvistur og víðikvistur. Þessa runna má klippa alveg niður á hverju ári án þess að skerða blómgun.
  4. Klifurplöntur má grisja og stytta á veturna og oft er líka gott að klippa utan úr slíkum plöntum eins og t.d fjallabergsóley og skógartopp. Fjallabergsóley má líka klippa strax að blómgun lokinni. Bjarmabergsóley má klippa nokkuð mikið án þess að það komi niður á blómgun og sama á við um skógartopp.

Ef ætlunin er að endurnýja runna er stundum gott að gera það í 2-3 áföngum. Þá er hluti yngstu greinanna skilinn eftir til þess að hjálpa plöntunni af stað um vorið. Síðan má fjarlægja þær sem eftir stóðu síðar um sumarið eða veturinn eftir

Stundum þarf að grisja trjákrónur sem eru orðnar mjög þéttar og tætingslegar. Þetta er gert til þess að opna fyrir loft og birtu inn í krónuna en það dregur úr hættu á að reyniáta og aðrir sjúkdómar herji á trén. Einnig er rétt að fjarlægja rótarskot frá trjám.

Greinar skal ávallt saga upp við stofn en ekki að skilja eftir stubba. Þungar greinar er gott að taka í áföngum.
Ekki er góð aðferð að taka mikið ofan af trjám eins og sumir hafa gert. Slík tré eiga mjög erfitt með að loka sárunum og vanþrífast oftast og eru til lítillar prýði. Þó getur komið til greina að taka ofan af trjám ef það er gert snemma og vandað til verks. En að skilja eftir stóra og svera stofna er yfirleitt ekki góður kostur. Betra er að grisja burt nokkur tré og lofa þeim sem eftir standa að vera eðlileg og heilbrigð.

Grisjun trjákrónu og uppkvistun trjástofna getur verið góð lausn ef tré eru farin að valda miklum skugga. Sumum tegundum eins og birki og hlyn getur blætt mikið á vorin þegar þau byrja að laufgast. Betra er að klippa þau í febrúar-mars eða eftir laufgun.
Oftast er óþarft að bera í sár eftir að greinar hafa verið sagaðar burt. Ef ástæða þykir til er hægt að fá sérstakt sárasmyrsl sem kemur í veg fyrir sýkingar og hjálpar sárum að gróa.