20 May Sjúkdómar og meindýr
Það er ekki algengt að sjúkdómar geri mikinn usla í görðum og fjöldi meindýra er líka í lágmarki hér á landi. Þó er nokkrir sjúkdómar sem geta orðið ágengir og eins eru til meindýr sem geta orðið hvimleið.
Ef að planta er sífellt haldin vanþrifum er nauðsynlegt að finna orsökina og stundum getur verið best að losa sig við plöntur sem sífellt eru sjúkar. Þær geta verið endalaus uppspretta fyrir sjúkdóma sem svo geta smitast á aðrar plöntur. Oftast eru þó meindýr og sjúkdómar ekki það alvarlegt vandamál að mögulegt er að gera viðeigandi ráðstafanir til að losna við það.
Mikilvægt er að hafa möguleikan á smiti í huga í upphafi, kaupa alltaf frískar og þróttmiklar plöntur og velja helst plöntur sem hafa góða mótstöðu gegn sjúkdómum.
Þol plantna gegn sjúkdómum getur verið mjög misjafnt jafnvel innan sömu tegundar. Þrifnaður er líka mjög mikilvægur sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn sjúkdómun og meindýrum. Nauðsynlegt er að þrífa vel potta og ker til að minnka smithættu, eins getur smit oft leynst í visnuðu laufi og dauðum greinum og borist þaðan í plönturnar.
Skiptiræktun skiptir gríðalega miklu máli í matjurtarækt til þess að fyrirbyggja sjúkdóma en getur líka átt við um aðra ræktun. Ef um einhæfa ræktun er að ræða á sama stað í langan tíma geta sjúkdómar magnast upp. Gott er að færa t.d kál og kartöflur á milli beða frá því sem var árið áður til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma og vanþrif.
Gott eftirlit er besta vörnin gegn meindýrum. Því bestur árangur næst ef gripið er til aðgerða áður en plantan er orðin undirlögð af þeim. Stundum er hægt að losna við meindýr með öðrum lífverum sem nærast á skaðvöldunum. Þetta er algeng aðferð í gróðurhúsarækt gegn t.d spunamaur, mjöl- og blaðlús. Hægt er að fá slík rándýr hjá þeim aðilum sem selja varnarefni gegn meindýrum. Varnardýrin verka best ef gripið er til aðgerða fljótt, skaðinn verður meiri ef meindýrin fá frið til að fjölga sér.
Eyðingarefni.
Ef aðferðir eins og náttúrulegur óvinur duga ekki eru til ýmis eyðingarefni gegn meindýrum. Af slíkum efnum er til margar gerðir, frá skaðlitlum og náttúrulegum uppí stórvirkari og skaðmeiri efni. Einnig eru til sérstök efni til eyðingar á sveppasjúkdómum. Alltaf þarf að kanna vel hvaða efni best er að nota í hverju tilfelli og fylgja vel öllum leiðbeiningum. Nauðsynlegt er að vera í hlífðargalla og með grímu fyrir andlitinu og ekki er gott að úða í miklum vindi. Aldrei ætti að úða ef ekki er þörf á því en ef það er gert getur verið gott að úða ekki alltaf með sama efni. Meindýr geta nefnilega orðið ónæm fyrir sumum efnum ef alltaf eru notuð þau sömu.
Nokkur algeng meindýr og sjúkdómar.
Asparglytta
Gláandi dökkgrænar bjöllur en lirfan er grænleit. Asparglytta legst helst á aspir og víðitegundir, mikið á viðju og gulvíði og étur helst ný og mjúk laufblöð. Bjöllunum fjölgar gríðar mikið og geta þær nagað plöntur mjög mikið. Asparglyttan á enga náttúrulega óvini á Íslandi, t.d. líta fuglar ekki við henni. Hægt er að úða gegn henni á sama hátt og öðrum meindýrum.
Blaðlús
Litlar grænar, gular eða brúnleitar lýs sem sjúga safa úr blöðum og sprotum. Leggjast á hinar ýmsu tegundir plantna og geta gert mikinn usla síðsumars nema garðeigendur séu þeim mun betur á verði. Lúsin getur leikið birki, rósir og fleiri tegundir nokkuð grátt. Yfirleitt er auðvelt að eyða þeim með varnarefnum.
Fiðrildalirfur
Ýmsar fiðrildalirfur geta valdið miklum skaða á trjágróðri sérstaklega fyrripart sumars. Mest gagn er af því að úða tré gegn lirfum í lok maí eða byrjun júní. Sumar tegundir af lirfum geta aftur á móti verið til vandræða seinni hluta sumars, þetta á t.d. við lirfu ertuyglu, sem verið hefur áberandi skaðvaldur. Auðvelt er að eyða slíkum dýrum með réttum aðferðum ef þurfa þykir.
Kálfluga
Lirfa kálflugu er oft til mikilla vandræða í kál- og rófurækt. Hún getur líka skemmt næpur og radísur. Lirfan nagar og skemmir rætur plantnanna. Ef settur er góður jarðvegsdúkur yfir plönturnar á varptíma flugunar er hægt að verjast árásum með viðunnandi árangri. En varpið er aðallega frá miðjum júní og fram í byrjun júlí. Líka er hægt að vökva með skordýraeitri meðfram plöntunum í júnílok eða fyrripart júlí.
Ranabjalla
Hún skemmir bæði blöð og rætur plantna. Bjöllurnar naga og eyðileggja blöð en lirfur ranabjöllunnar eru í jarðveginum og geta valdið miklum skaða á rótum. Lirfurnar eru um 1 sm á lengd og hvítar á lit en bjöllurnar svartar og hreyfa sig mjög hægt. Bjöllurnar eru það stórar að auðvelt er að leita þær uppi og farga þeim en það er ekki mjög árangurstíkt að úða gegn ranabjöllum. En ef mikið er af lirfum í jarðveginum er mögulegt að vökva niður með einstaka plöntum með eiturblöndu.
Ryðsveppur
Hér á landi herjar ryðsveppur mest á víðitegundir, birki, ösp og stundum á rósir. Fyrst myndast gulir flekkir á neðra borð laufblaða, síðan sortna þau og laufið fellur. Ekki hefur verið til sveppalyf sem dugar gegn ryðsvepp í nokkur ár og fátt til ráða. Best er að rækta plöntur sem hafa þokkalegt þol gegn sjúkdómnum.
Ryðsveppur hefur lagst hvað verst á Hreggstaðavíði og gljávíði. Best er að hreinsa burt allt sýkt lauf á haustin, klippa plönturnar vel, jafnvel alveg niður á veturna og klippa svo hóflega framan af vextinum síðsumars. Þetta ráð er fyrir plöntur í klipptum limgerðum. Það eru þó skiptar skoðanir á þessu, það er ýmsu haldið fram í þessum efnum. Óklippt tré þola oft ryðsvepp betur en klippt tré og þá er best að láta þau vera óklippt áfram. Það er margt sem bendir til að plönturnar myndi mótstöðu gegn sjúkdómnum með tímanum svo það er óþarfi að rjúka í að henda þeim um leið og sveppasmits verður vart.
Sitkalús
Sitkalús er smávaxin blaðlús, sem veldur mestum skaða á haustin og fyrripart vetrar. Hún legst eingöngu á grenitré. Lúsin sýgur safa úr barri trjánn, barrnálarnar verða gular og detta síðan af. Lúsin er mjög smávaxin og það getur verið erfitt að sjá hana. Helst að skoða neðra borð greinanna, þar er hún eins og grænar doppur á nálunum. Sitkalús er mjög frostþolin, þolir allt að 13 stiga frost, það þarf að vera frost neðan við -10°C stöðugt í nokkra daga til að henni fækki sem nokkru nemur. Lúsin drepur ekki stór tré en þau fella barr og verða oft mjög ljót í nokkur ár áður en þau ná sér aftur. Hægt er að úða gegn sitkalús í hlýju veðri á haustin eða á veturna.
Sniglar
Sniglar geta verið til mikils ama í görðum, þeir naga ýmsar plöntur og geta skemmt mjög mikið. Besta vörnin gegn sniglum er hreinlæti í beðum, fjarlægja þarf allt illgresi og raka yfir beðin reglulega. Sniglar skríða á raka dimma staði yfir daginn og er oft hægt að veiða vel snigla með því að leggja spítur eða poka á skuggsæla staði. Þá er best að fara út á kvöldin og fjarlægja dýrin. Einnig er hægt að egna fyrir sniglum með því að grafa niður opna bjórdós svo opið stendur uppúr, sniglarnir skríða á lyktina og drukkna í dósinni. Ef sniglaveiðar höfða ekki sérstaklega til garðeigenda er hægt að fá sérstakt sniglaeitur sem virkar vel.
Spunamaur
Er lítill maur sem legst á plöntur og veldur því að blöðin verða mött, gulbrún og falla af síðsumars. Spunamaur spinnur vef svo stundum verður plantan öll þakin gulum vef. Spnamaur er til mestra vandræða í gróðurhúsum en getur líka gert usla úti. Hægt er að kaupa ránmaura, sem eru náttúrlegir óvinir spunamaura, og setja þá í gróðurhús. En ef spunamaurinn hefur náð sér á strik og er orðinn að faraldri getur verið nauðsynlegt að úða líka með sérstökum efnum sem virka á hann.
Fleiri kvillar og meindýr eru til og með hlýnandi veðurfari og innflutningi á lifandi plöntum bætast sífellt nýir kvillar og meindýr við sem gera garðeigendum lífið leitt. Mikilvægast er að fylgjast með lífinu í garðinum og láta meindýr og pestir ekki ná sér á strik áður en gripið er til aðgerða.