fbpx

Plöntur með gul blöð

Plöntur með gul blöð

Margir tengja gulan blaðlit við einhvers konar skortseinkenni hjá plöntum en svo þarf alls ekki að vera. Hjá ýmsum plöntutegundum eru nefnilega til afbrigði eða yrki með gulleit blöð. Þessi gulleitu blöð lýsa upp umhverfið og gefa skemmtilega fjölbreytni í grænu garðumhverfinu. Yfirleitt er guli liturinn mest áberandi þegar plönturnar standa á björtum stað og ef þær lenda í skugga verða þær frekar ljósgrænar á litinn. Til viðbótar við gulan blaðlitinn blómstra þær rétt eins og grænir ættingjar þeirra af sömu plöntutegund og sumar þessara tegunda fá gullfallega haustliti. Af trjá- og runnategundum með gulleit blöð má nefna fjölda yrkja af japanskvisti, garðakvistil, reyniblöðku og snækóronu. Fjölærar plöntur eru ekki síður duglegar að koma með gulblaða afbrigði, eins og vetrarneisti, humall og fjöldinn allur af brúskum. Grastegundir eins og háliðagras ´Aureovariegatus‘ og skrautpuntur ´Aureum´ eru mjög líflegar með sín löngu og fallegu gulu og gulröndóttu blöð.