fbpx

Limgerði

Limgerði

Notkun á trjám og runnum í limgerði hefur verið mjög mikil hér á landi í  marga áratugi og víða má sjá falleg og vel snyrt limgerði. Hægt er að klippa þau allt að 3 sinnum á ári og jafnvel oftar en líka má láta þau vaxa að mestu óklippt. Limgerði eru mest notuð við lóðarmörk en þau má einnig nota til þess að afmarka svæði innan lóða.  Hæðin getur verið frá 50 sm upp í 2-3 metra.

Fyrir útplöntun er nauðsynlegt að undirbúa jarðveginn vel með því að setja vel af búfjáráburði eða öðrum lífrænum áburði í beðið. Heppilegast er að grafa 30-50 sm djúpa rás fyrir plönturnar og blanda búfjáráburðinum vel í botninn og er best að hann sé 1-2 ára gamall. Breidd beðsins er höfð 60-80 sm og bilið á milli plantna haft 25-35 sm, sem gerir 3-4 plöntur á lengdarmetra.  Gott er að strengja snúru eftir miðju beðinu og gróðursetja eftir henni.  Þjappa þarf vel eftir gróðursetningu en ekki of fast því þá er hætt við því að moldin verði loftlítil.  Passa verður að vökva vel strax eftir gróðursetningu og halda því áfram næstu vikurnar meðan plantan er að róta sig. Heppilegasti tíminn til að setja niður limgerðisplöntur er á vorin og haustin en þó má líka gróðursetja yfir hásumarið ef vel er gætt að vökvun. Plöntur, sem ræktaðar eru í pottum, eru heppilegri til gróðursetningar yfir hásumarið.

Fjölmargar tegundir má nota í limgerði. Algengt er að nota ýmsar tegundir af víði t.d brekkuvíði, strandavíði og viðju. Í stór og gróf limgerði má nota alaskavíði og jörvavíði sem eru mjög saltþolnir og henta því vel við sjávarsíðuna.  Gljámispill og fjallarifs eru líka tegundir sem eru mjög fallegar í limgerði en eru mun hægvaxnari heldur en víðir. Birki, sunnubroddur, blátoppur, runnamura og kopareynir eru allt tegundir sem sóma sér vel í limgerðum ásamt tegundum eins og lerki og sitkagreni.

Dæmi um tegundir sem henta í:

Lágvaxin limgerði 
u.þ.b. 50 sm
Birkikvistur, fjallarifs, gljámispill, loðvíðir, myrtuvíðir og runnamura.

Meðalhá limgerði 1-2 m
Birki, blátoppur, brekkuvíðir, fjallarifs, gljámispill, koparreynir, strandavíðir og sunnubroddur.

Hávaxin limgerði yfir 2 m
Alaskavíðir, jörfavíðir, lerki, sitkagreni og viðja.

Mun fleiri tegundir er hægt að nota en þær sem hér hafa verið nefndar, allt eftir þörfum hvers og eins garðeiganda.  Klipping og mótun hefst strax  á fyrsta vetri eða vorið eftir gróðursetningu. Limgerðinu er síðan leyft að bæta við sig um 20-25 sm á ári. Mikilvægt er að klippa alltaf vel úr hliðunum til þess að halda því þéttu og til þess að limgerðið breikki ekki of mikið. Oftast er best að hafa limgerði mjó efst en breiðust neðst  þannig kemst mesta birtan á neðri hlutann, sem kemur í veg fyrir að þau verði gisin að neðan. Þó þola skuggþolnar tegundir eins og gljámispill og fjallarifs nokkuð vel að vera klippt í kassaform. Limgerði, sem eru breiðust neðst og mjókka upp  brotna síður undan snjó.  Sumar tegundir geta verið mjög hraðvaxnar og er heppilegast að klippa þær a.m.k einu sinni að sumri t.d. um miðjan júlí og svo aftur um veturinn eða næsta vor.