fbpx

Jarðvegur

Jarðvegur

Jarðvegur er eitt af  því sem mestu máli skiptir til þess að ræktun plantna skili viðunandi árangri. Þó eru kröfur plantna til jarðvegs mismiklar eftir tegundum. Lerki, fura og elri geta t.d gert sér ófrjóan jarðveg að góðu og sama má segja um ýmsar smágerðar steinhæðaplöntur.

Flestar garðplöntur kjósa samt frjósaman, loftríkan og rakaheldin jarðveg. Sérstaklega þarf að passa uppá að jarðvegur í matjurtagörðum sé af bestu gerð og er nauðsynlegt að bæta í hann búfjáráburði eða safnhaugamold annað slagið.

Í mörgum nýjum hverfum er verið að byggja á holtum og melum þar sem jarðvegur er lítill og lélegur.  Þar er nauðsynlegt að fá aðfluttan jarðveg eða bæta þann sem fyrir er ríkulega með búfjáráburði.  Það er mjög breytilegt hve djúpan jarðveg plöntur þurfa, smávaxnar blómplöntur geta komist vel af með 10-20 sm jarðveg. Runnar og tré þurfa helst um 40-80 sm þykkan jarðveg til að dafna sem best.
Það getur verið snúið að flokka jarðveg nákvæmlega í flokka en hér skulu nefndar helstu jarðvegsgerðir hér á landi.

Moldarjarðvegur getur verið mjög breytilegur en er almennt samsettur af mismikið rotnuðum jurta og dýraleifum.  Hann heldur vel raka og bindur vel næringarefni. Í frosti er hætt við frostlyftingu svo holklaki getur myndast. Til að koma í veg fyrir þetta er gott að bæta sandi í moldina. Ef  jarðvegurinn er næringarsnauður eins og stundum er í mólendi er gott að bæta búfjáráburði í hann til þess að auka frjósemi. Sökum mikils raka og lífræns efnis getur verið bið eftir því að moldarjarðvegur þiðni og hlýni á vorin.

Mýrarjarðvegur samanstendur af jurta og dýraleifum sem ekki eru full rotnaðar en annars svipar honum til moldarjarðvegs. Jurtaleifarnar eru samt mun sýnilegri en í moldarjarðvegi.  Mýrarjarðvegur er oft nokkuð súr, því er gott að láta hann liggja og veðrast í nokkurn tíma áður en hann er notaður.  Líka er gott að kalka hann vel í upphafi. Mýrarjarðvegur þornar og hlýnar seint á vorin en er annars góður til ræktunar því hann bindur vel næringarefni og raka. Það er gott að blanda í hann sandi til að létta hann og minnka frosthreyfingu.

Sandjarðvegur er að mestu leiti samsettur úr misgrófum sandi og er lítið af lífrænum efnum í honum.  Hann loðir illa saman en er léttur og þægilegur í vinnslu. Hann heldur illa vatni og næringu en hefur þá kosti að hlýna  og þorna fljótt á vorin og er mjög auðunninn. Sandjarðveg má bæta upp með aðfluttri mýramold eða búfjáráburði og verður hann þá góður til ræktunar.

Skriðujarðvegur er víða við fjallsrætur og inni í dölum og við strendur þar sem takmarkað undirlendi er. Hann er framburður úr fjöllum þar sem sandur og grjót af ýmsum stærðum blandast saman og lítið er um eiginlega mold í honum. Hann getur einnig verið leirkenndur. Skriðujarðvegur er oft þéttur, blautur og kaldur. Hann má bæta með því að hreinsa úr honum gjrót og bæta í hann næringarríkri mómolgd og lífrænum áburði.

Ávallt er hægt að bæta lélegan og ófrjóan jarðveg með því að setja í hann safnhaugamold, búfjáráburð eða önnur lífræn  efni.  Einnig má setja þang og þara sem staðið hefur í haug í 3-4 mánuði.  Hér á landi getur jarðvegur verið frekar súr og er því gott að kalka hann og á það sérstaklega við um nýjan mýrajarðveg. Stundum getur verið gott að hafa jarðveg frekar rýran t.d. ef rækta á  steinhæðaplöntur.  Þá er gott að blanda jarðveginn með sandi og tryggja gott frárennsli.