fbpx

Blómstrandi runnar í garðinum

Blómstrandi runnar í garðinum

Heggur í blóma

Fátt er skemmtilegra á vorin en að hafa fallega blómstrandi runna í garðinum. Síðustu ár hefur framboð af snemmblómstrandi trjám og runnum sífellt aukist. Margir þeirra þrífast vel við íslenskar aðstæður, blómstra mikið á hverju ári og gefa jafnvel lostæt ber á haustin.

Ein vinsæl ættvísl garðtrjáa er Prunus-ættkvíslin. Tegundir sem henni tilheyra eiga það sammerkt að byrja vaxtartímann á því að blómstra. Þessari ættkvísl tilheyra um 430 tegundir og ræktunarafbrigði helstu tegunda óteljandi. Margar tegundir ávaxtategunda tilheyra þessari ættkvísl eins og t.d. kirsuber, möndlur, ferskjur og plómur.

Heggur getur orðið stórt og glæsilegt tré

Síðustu ár hafa margir garðeigendur gert tilraunir með harðgerð afbrigði af ávaxtatrjám. Margir hafa haft mikla gleði af þessum tilraunum en það er ljóst að Ísland er á mörkunum hvað slíka ræktun varðar. Svo það er augljóslega ekki nema fyrir áhugasama og þolinmóða garðeigendur að rækta ávaxtatré til uppskeru.

En það eru fleiri tegundir af þessari ættkvísl sem veitt hafa Íslendingum gleði í görðum sínum og bregðast ekki ár eftir ár þaktar ilmandi blómskrúði fyrripart sumars. Vaxa vel og njóta sín án mikillar fyrirhafnar.

Elst í ræktun hér á Íslandi er heggur Prunus padus sem búinn er að vera garðaprýði á Íslandi allt frá fyrstu árum síðustu aldar.
Sá heggur sem lengst hefur verið ræktaður hér á landi er norskur heggur. Hann er víða til í görðum og orðinn stórt og mikið tré.

Blóm á hegg

Heggurinn blómstraryfirleitt fyrrihluta júní mánaðar hér á landi og er þá hægt að njóta fegurðar og ilms blómanna. Heggurinn er eins og fleiri tegundir af Prunus ættkvíslinni, blómstrar áður en hann laufgast algerlega. Eftir blómgun laufgast hann og fær svo fallega haustliti sem prýða garðinn fram eftir hausti.

Af hegg eru í sölu margs konar ræktunarafbrigði, þekktast er blóðheggur, rauðblaða heggur oft af sortinni Colorata. Blóðheggur blómstrar bleikum blómum og er oft heldur fyrr á ferðinni en venjulegi heggurinn og laufgast svo sínu glæsilega rauðgræna laufskrúði.  Ræktunarafbrigðin eru oft heldur viðkvæmari en þrífast sam vel og víða eru til falleg tré sem blómstra á hverju ári.

Blóm blóðheggs

Ein tegund af Prunus ættkvíslinni sem slegið hefur í gegn síðustu ár er rósakirsi Prunus nipponica var. kurilensis. Með eindæmum blómviljug tegund sem þakin er bleikum blómum snemma á vorin. Til eru ýmis ræktunarafbrigði af rósakirsi, algengast er ‘Ruby’ en önnur hafa reynst ágætlega. Rósakirsi var valið einkennisplanta Hveragerðisbæjar og má sjá það þar blómstrandi í mörgum görðum í maí á hverju ári.

Hveragerði – einkennisplanta bæjarins

Rósakirsi í blóma

Garðplöntustöðvar eru með margar tegundir til sölu, um að gera að leita til sölustaðanna og spyrja ráða þegar farið er að huga að fallegu tré í garðinn.