fbpx

Bláklukkur – Campanula ættkvíslin

Bláklukkur – Campanula ættkvíslin

Blómstrandi bláklukka

Það er alltaf eitthvað heillandi við himinbláar bláklukkur, hvort sem maður rekst á íslensku bláklukkuna í gönguferð á Austurlandi eða aðrar bláklukkutegundir í görðum landsmanna.

Fjölmargar tegundir eru í ræktun af bláklukkum og eru þær af öllum stærðum og gerðum. Hægt er að finna lágvaxnar, nærri jarðlægar bláklukkur eins og smáklukku eða fjóluklukku, meðalháar bláklukkur eins og íslensku bláklukkuna, hjartaklukku og höfuðklukku eða hávaxnar bláklukkur eins og fagurklukku eða risaklukku. Allar eiga þær það sameiginlegt að vera með bjöllulaga eða klukkulaga blóm, ýmist eru þau upprétt eða lúta höfði og eru allt frá því að vera rúmur sentimetri að lengd yfir í sex til sjö sentimetra að lengd og breidd.

Meginblómlitur bláklukkna er eins og nafnið gefur til kynna blár en einnig eru til hvítar klukkur, fjólubláar, bleikar og jafnvel einstaka tegund með gul blóm. Blómgunartími flestra tegunda er á miðju sumri og við rétt skilyrði eru þetta sérlega blómviljugar tegundir. Þeim hentar að vera í hæfilega rökum jarðvegi. Flestar bláklukkur þola dálítinn skugga þannig að ekki þarf að koma þeim fyrir á sólríkasta staðnum í garðinum, hann má halda áfram að nota til sólbaða. Hins vegar þurfa þær beina sól góðan hluta dags til að blómgunin verði eins og best verður á kosið. Skriðular bláklukkur má nota í steinhæð eða sem þekjuplöntur innan um hávaxnari plöntur, meðalháar bláklukkur eru frábærir fulltrúar í fjölæringabeðið og hávöxnu bláklukkurnar er best að rækta á skjólgóðum stað og styðja þær með uppbindingu til að fegurð þeirra njóti sín til fulls.