Þinn garður – þín kolefnisbinding

Félag garðplöntuframleiðenda stendur að átaksverkefninu Þinn garður – þín kolefnisbinding til að auka áhuga, þekkingu og þátttöku almennings á ræktun gróðurs með tilliti til kolefnisbindingar.  Með því vill félagið vekja vitund um að allur gróður og græn svæði binda kolefni og allir geta lagt sitt til. Allar plöntur ljóstillífa og binda kolefni. Ræktun í heimilisgarði hreinsar mengun og skaðleg efni úr umhverfinu og er því hagur allra til framtíðar að sem flestir dragi fram sína grænu fingur og taki þátt í að kolefnisbinda með sinni ræktun.

Þitt framlag skiptir máli

Með aukinni þéttbýlismyndun og þéttingu byggðar hefur trjágróður og garðplöntur sums staðar þurft að hopa fyrir mannvirkjum. Einnig hefur gróður í görðum og útisvæðum átt undir högg að sækja í samkeppni við palla, grindverk, steypt yfirborð og malaryfirborð.  Með gróðursetningu og ræktun almennings, hvort sem er í litlum garði, á svölum, á sumarhúsalóðum eða stærri reitum og jafnvel bújörðum þá skiptir framlag hvers og eins máli þegar kemur að kolefnisbindingu. 

Stærsta ræktunarverkefni Íslands

Þolinmæði er lykilinn í ræktun og kolefnisbindingu. Það eru ýmsar leiðir sem fólk getur farið til að kolefnisjafna sig með að rækta í garðinum sínum, á svölunum eða í sumarbústaðalöndum. Stærsta og fjölbreyttasta ræktunarverkefni á Íslandi er ræktun gróðurs í þéttbýli og sumarbústaðalöndum.

Einstök tré í borgum hafa að geyma, að meðaltali fjórfalt magn kolefnis á við einstök skógartré. Tré binda kolefni úr andrúmsloftinu með ljóstillífun. Það kolefni sem ekki nýtist þeim í efnaferlinu, geyma þau í lífmassa sínum. Kolefnið er bundið í lífmassanum þar til því er sleppt aftur með loftskiptum (öndun), brennslu, eða öðrum efnabreytingum.

Við erum á Facebook: